Monday, December 3, 2007

Fyrst reyklaust, svo fretlaust á endanum kynlaust!

Sem ötulum reykingarmanni hefur mér þótt frekar skítt hvernig komið hefur verið fram við okkur fíklana. Því þykir mér gott að sjá að farið er að taka á málinu á fleiri vígstöðvum, nú á að banna fretara á skemmtistöðum.

Næst verður okkur svo bannað að dansa þar sem svitalykt þykir vond og óþægileg. Svo þegar Kolbrún vinstrigræna verður búin að gera okkur öll kynlaus með því að neyða okkur í samskonar hvítar eða gráar mussur þá fyrst verður þetta fullkomið.

Sennilega verður bara seldur standard drykkur á þessum stöðum þar sem t.d. sumum finnst Campari ógeðslegt og öðrum finnst bjór og bjórlykt vond. Sennilega verður það bara vodka straight up þar sem hann er því sem næst lyktarlaus, nú eða gamla góða kláravínið.

Við þykjumst vera að fagna fjölmenningarsamfélagi, en erum í óða önn með boðum og bönnum að reyna að steypa alla þegna þjóðfélagsins í sama farið.

Lifi frelsið, einstaklingurinn á að fá að njóta sín, reykjandi, fretandi og í þeim klæðnaði sem hann vill.

Frétt af mbl.is Bannað að leysa vind innandyra

Stjórnin að bjarga andliti vinstri grænna!

Vinstri grænum hefur verið tamt á þingi að tala hluti til dauða. Það hefur verið von og vísa vinstri manna í gegnum tíðina að ræða hlutina fram og tilbaka í stað þess að leysa vandamál.

Þeir þykjast sífellt vera að reyna að finna fleti á málum þar sem allir geta náð sátt og kostar yfirleitt að búið er að taka ágætis hluti og moða þá niður í eintóman vaðal.

"If you try to please everyone, someone is not going to like it." Er haft eftir ágætum manni sem ég verð að viðurkenna að ég hef ekki hugmynd um hver er, en sannleikurinn er talsverður í þessum orðum.

Mér liggur við að nota orðið hryðjuverk við framkomu VG á þingi. Málþóf sem byggist á endalausum ræðuhöldum til að tefja störf þingsins verður þess valdandi að ekki er mark takandi á þingmönnum þessa annars ágæta flokks. Mér er er í mun að einhverjir reyni að skoða ólíkar hliðar á málunum, en að reyna að halda frumvörpum á þingi með endalausu kjaftæði vekur mér velgju. Þarna er flokkur sem er með 10-15 prósent þjóðarinnar á bak við sig að hindra eðlilega þróun lýðræðisins.

"Get real guys" þið eruð í minnihluta, það þýðir að það er minnihluti þjóðarinnar sem vill að ykkar skoðanir nái fram að ganga. Framkoma ykkar gerir ekkert nema að setja niður virðingu alþingis og þeirra sem til þess eru kosnir.

Sýnið frekar almennilega andstöðu byggða á hnitmiðuðum og knöppum málflutningi frekar en að drepa málinu á dreif með 24 klukkustunda ræðuhaldi. Er sammála Helga Hjörvar að sum ykkar eigið meira heima á endurmenntunarnámsskeiði en Alþingi ef þið getið ekki komið skoðunum ykkar til skila á innan við 15 mínútum.

Sýnist stjórnin vera að reyna að bjarga andliti VG með því að draga þá úr sandkassanum og inn í raunveruleikann. Með takmörkun á ræðutíma gæti farið svo að hægt verði að líta á VG sem alvöru stjórnarandstöðu.

Lfiði heil.


Frétt af mbl.is Ekki til umræðu að versla með réttindi og vígstöðu stjórnarandstöðu

Wednesday, November 28, 2007

Kynblindni jafn skaðleg og siðblindni?

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1305687

Oft hefur Nöldraranum þótt nóg um hvernig kjörnir alþingismenn eyða tíma sjálfs síns og Alþingis í bölvaða vitleysu. Afskipti þingmanna af ýmsum málum í gegnum tíðina sem betur hefðu verið leyst annarsstaðar en á þingi er efni í heilan bókaflokk.

Nú ákveður Kolbrún Halldórsdóttir að sólunda tíma heilbrigðisráðherra og þingisins með því að spyrjast fyrir um hvenær nýfædd börn á fæðingardeildinni verði klædd í kynlausa liti. Bleiki og blái liturinn sem þarna hefur viðgengist svo lengi sem ég man eftir er núna orðið óhæft.

Fyrirgefðu Kolbrún, en ef litaval á fatnaði nýfæddra ungabarna er helsta vandamálið í þjóðfélaginu í dag, þá held ég að þú hafir ekkert að gera á þingi. Sama á við um afskiptasemi þína um hvað opinberir starfsmenn gera utan vinnutíma í ferðalögum erlendis.

Ég sé fyrir mér að næstu vandamál þjóðfélagsins sem þú tekur á er að banna öll pils og kjóla (eða skikka karlmenn til að ganga í þeim líka) þar sem þarna er nú aldeilis hægt að greina kynjamun.

Hvað tekur svo við næst? Skurðaðgerðir til að gera alla tvítóla í þjóðfélaginu svo ekki sjáist á þeim neinn munur.

Held að femínistakjaftæðið sé gengið út í svo miklar öfgar að líkja má þessum "kynhreinsunum" við þjóðernishreinsanir nazista í seinni heimstyrjöldinni.

Í guðanna bænum farið að taka á einhverjum ALVÖRU vandamálum í þessu þjóðfélagi í stað þess að dunda við svona þarflaust kjaftæði.

Thursday, November 22, 2007

Hálfsagðar fréttir... dapurleg blaðamennska.

Hver var ástæðan fyrir því að ÍE var sýknað? Kemur það málinu ekkert við?

Skil ekki svona letiblaðamennsku að setja bara inn hálfar fréttir á vefinn.

Hræddur um að lesendum Morgunblaðsins færi hratt fækkandi ef allar fréttir væru unnar með þessu fyrirkomulagi á pappírsforminu.

Breytt: 18:18 Sé að búið er að bæta kjöti á beinið, gott að sjá svona viðbrögð.......


Frétt mbl.is: ÍE ekki bundið af ákvæði kjarasamninga um hækkun lífeyrissjóðsgreiðslu

Thursday, November 1, 2007

Kristileg fíkiefnavopnasamkunda!

Skv samskonar frétt á Visir.is (http://www.visir.is/article/20071101/FRETTIR01/71101131) stóð í fyrirsögn að "Tölvur, vopn og fíkniefni hefðu fundist hjá Fáfnismönnum". Sennilega einhver gert athugasemd því nú stendur bara að vopn og fíkniefni hafi fundist enda skítt að skilgreina tölvur sem einhverskonar óæskilegt góss sem fundist getur hjá mótorhjólaklúbb.

Enn fyndnara þykir mér að sjá vitnað í félagsmann samtakanna sem þvertekur fyrir að Hells Angels sé á leiðinni til Íslands

" Hann sagði engin áform um að þessir menn væru á leið til landsins en sagði kristilegan arm samtakanna ætla að hittast um helgina og biðja saman. „Við ætlum að biðja fyrir veikum og sjúkum."

Já og eru vopn og fíkniefni nú orðin nauðsynleg til tilbeiðslu? Tjah maður spyr sig!

Frétt Mbl: Lögreglan gerði húsleit hjá fáfnismönnum

Sunday, October 28, 2007

Eru blaðamenn lötustu starfsmenn í heimi?

Undanfarið hefur það ekki farið fram hjá manni að það er gúrkutíð hjá fjölmiðlum. Reyndar er ástandið búið að vera svo slæmt að kalla má það ofurgúrkutíð eins og fréttaflutningurinn hefur verið.

Nú ekki vantar framboðið á óumbeðnum umbúðapappír sem treðst inn um lúguna hjá manni, þrátt fyrir augljós tilmæli á hurðinni að undirritaður kæri sig hvorki um Fréttablaðið né 24 Stundir. Einstaka sinnum svo dettur inn bæjarfréttablað, sem hefur klárlega vinningin þegar efnistök blaðanna eru skoðuð.

Bæði Fréttablaðið og 24 stundir er svo rýrt að það má lesa forsíðu og tvær síður inn í blaðið mínus heilsíðuauglýsing og svo er gamanið búið. Restin af blaðinu eru smáauglýsingar, "fréttir" af nýjustu skandölum fræga fólksins, vinnuvélablað (ég veit ekki hvaða vinnuvélablæti blaðaútgefendur eru haldnir), íþróttasíðurnar (geisp), en þó læt ég mig hafa það að lesa teiknimyndasögurnar, enda Pondus og Hermann ómissandi.

Reyndar er langt síðan að ég hætti að fletta blöðum, ég er með mbl í netáskrift og get nálgast hin blöðin líka á vefnum, þannig að eina sem pappírinn gerir fyrir mig er að skapa mér óumbeðnar ferðir á sorpu.

En aftur af gúrkutíðinni. Það sem innblés mér þetta nöldur var að sjá forsíðuna á Visir.is. Þar er verið að ræða um nýjasta nýtt í Madeleine málinu. Þar er "frétt" sem er étin beint upp úr snepli sem kallast News of the World og hefur í mínum huga og margra annara verið álitið jafn áreiðanlegt og National Enquierer. Semsagt fréttin þýdd beint upp úr skítasnepli sem er ekki virði pappírsins sem hann er gefin út á. Og þetta ratar á forsíðu Visir.is???? Ereggiílagiiiiii með þetta lið?

Eina blaðið sem virðist leggja einhvern metnað í það sem þeir eru að gefa út er Morgunblaðið, þar eru tekin fyrir stærri mál og þeim gerð góð skil, jafnvel þó ekki sé mikið að gerast á götunni. Fríblöðin eru svo nísk að þau virðast ekki vera með sjálfstæðan fréttaflutning heldur er orðið meira og minna "kött" og "peist" af bloggsíðum og innsendum greinum í héraðsfréttablöð.

Ég bara spyr, til hvers þarf blaðamenn til að gefa svona lagað út? Þetta eru sömu vinnubrögð og sex ára krökkum er kennt í föndri? Kanski er ráð að innlima leikskóla í ritstjórnarskrifstofur fríblaðana til að ná þokkalegum samlegðaráhrifum

Er það nema von að maður spyrji sig hvort að blaðamenn á Íslandi séu lötustu starfsmenn í heimi, hvar er metnaðurinn?

Wednesday, October 24, 2007

Barnið dettur í það þó brunnurinn sé byrgður, það finnur bara aðra leið.

Þessa dagana ganga heilsupostular hver á eftir öðrum og velta upp ægisögum um skaðsemi þess að selja áfengi í hillum matvöruverslana.

Ekki nóg um það, heldur standa afturhaldsmussukommatittirnir á því fastar en fótunum að þetta sé bara gert til að auka hagnað heildsala, milliliða og smásala. Duuuuh, samkeppni (þó hún heiti fákeppni) sér um að tryggja hagstæðara vöruverð svo lengi sem menn svína ekki á því í samkeppnishamlandi bíltúrum um Öskjuhlíðina.

Í flestum velferðarríkjum betri ríkjum er þetta bara selt á kassanum í hverri matvörubúð, hinsvegar eiga einhverjar aðrar "ógreinilegar" reglur að gilda um íbúa norður evrópu, þar sem þetta er hættulegra efni en eitur í höndum okkar sem hér búa.

Að neyslan margfaldist við að gefa þetta frjálst segir velferðarráð, hvernig margfaldast hún? Seldir lítrar af áfengum drykkjum, seldir alkohóllítrar? Mér finnst það bara skipta heilmiklu máli hvernig þessi eining er fundin. Það er ekkert óeðlilegt við það að maður fái sér oftar rauðvín með matnum fyrst maður getur gripið það með um leið og maður kaupir í matinn. Fyrst maður fær sér oftar rauðvín þá hlýtur magnið að aukast, en það þarf ekki að vera neitt verra ef prósentunum fækkar í því sem við drekkum.

Held að það hefði orðið okkar mesta gæfa að forsjárhyggjupostular fortíðarinnar hefðu sleppt því að banna bjórinn á sínum tíma. Mér finnst amk fólk drekka betur í dag en það gerði, fær sér kanski eitt tvö léttvínsglös og búið eða einn eða tvo bjóra, en hvolfir ekki brennivínsflöskunni í sig á einum til tveimur tímum og verður sótölvað um leið og svo timbrað daginn eftir að bráðasta nauðsyn er að rétta sig af eigi viðkomandi að halda lífi. Nei þá er nú betra að taka einn eða tvo kalda og vakna stálhress daginn eftir.

Bara gera þetta sem aðgengilegast takk fyrir, já og vodkann líka ef ég skyldi vilja blanda hanastél í pinnapartýinu mínu um helgina.

Frétt Mbl.is

Thursday, October 11, 2007

Ástæðan? REI eða Alfreð?

Núna seinnipartinn flaug mér í hug smá samsæriskenning. Skyldi REI sé bara tylliástæða fyrir Björn Inga að rjúfa samstarfið við sjallana?

Aðalástæðan skyldi þó ekki vera sú að nú sé verið að refsa fyrir upplausn á byggingarnefnd hátæknisjúkrahúss og brotthvarfi félaga Björns úr forsæti þeirrar stjórnar sem valdi þessum skyndilegu vinslitum? Einhvernveginn finnst mér þetta REI/GGE mál of mikið smotterí til að valda svona miklu fjaðrafoki.

Eitt veit ég eftir þennan dag, aldrei skal ég þurfa að reiða mig á framsóknarmann í einu eða neinu það sem eftir er ævinnar. Þetta verður fín borgarstjórn, gangi Birni Inga vel að vinna með þremur öðrum flokkum fyrst hann gat ekki unnið með sjálfstæðisflokknum einum og sér.

Bætt við kl:20:07

Í viðtali á Vísi.is er vitnað til þess að Alfreð eigi hlut að máli varðandi myndun nýs meirihluta.

(sjá: http://www.visir.is/article/20071011/FRETTIR01/71011116#)

Þar stendur "Aðspurður um það hvort kalla megi nýja borgarstjórnarmeirihlutann Alfreðsstjórnina segir hann "Ég var nú hættur í pólitík og farinn að snúa mér að öðrum verkefnum - byggingu nýs sjúkrahúss. Mér var síðan kippt út úr því verkefni af Guðlaugi Þór Þórðarsyni heilbrigðisráðherra. Þar með gafst mér tími til annarra verkefna. Það má því kannski allt eins eigna Guðlaugi heiðurinn að nýjum meirihluta," segir Alfreð"

Klárt að frammarar ríða aldrei við einteyming.