Monday, December 3, 2007

Fyrst reyklaust, svo fretlaust á endanum kynlaust!

Sem ötulum reykingarmanni hefur mér þótt frekar skítt hvernig komið hefur verið fram við okkur fíklana. Því þykir mér gott að sjá að farið er að taka á málinu á fleiri vígstöðvum, nú á að banna fretara á skemmtistöðum.

Næst verður okkur svo bannað að dansa þar sem svitalykt þykir vond og óþægileg. Svo þegar Kolbrún vinstrigræna verður búin að gera okkur öll kynlaus með því að neyða okkur í samskonar hvítar eða gráar mussur þá fyrst verður þetta fullkomið.

Sennilega verður bara seldur standard drykkur á þessum stöðum þar sem t.d. sumum finnst Campari ógeðslegt og öðrum finnst bjór og bjórlykt vond. Sennilega verður það bara vodka straight up þar sem hann er því sem næst lyktarlaus, nú eða gamla góða kláravínið.

Við þykjumst vera að fagna fjölmenningarsamfélagi, en erum í óða önn með boðum og bönnum að reyna að steypa alla þegna þjóðfélagsins í sama farið.

Lifi frelsið, einstaklingurinn á að fá að njóta sín, reykjandi, fretandi og í þeim klæðnaði sem hann vill.

Frétt af mbl.is Bannað að leysa vind innandyra

Stjórnin að bjarga andliti vinstri grænna!

Vinstri grænum hefur verið tamt á þingi að tala hluti til dauða. Það hefur verið von og vísa vinstri manna í gegnum tíðina að ræða hlutina fram og tilbaka í stað þess að leysa vandamál.

Þeir þykjast sífellt vera að reyna að finna fleti á málum þar sem allir geta náð sátt og kostar yfirleitt að búið er að taka ágætis hluti og moða þá niður í eintóman vaðal.

"If you try to please everyone, someone is not going to like it." Er haft eftir ágætum manni sem ég verð að viðurkenna að ég hef ekki hugmynd um hver er, en sannleikurinn er talsverður í þessum orðum.

Mér liggur við að nota orðið hryðjuverk við framkomu VG á þingi. Málþóf sem byggist á endalausum ræðuhöldum til að tefja störf þingsins verður þess valdandi að ekki er mark takandi á þingmönnum þessa annars ágæta flokks. Mér er er í mun að einhverjir reyni að skoða ólíkar hliðar á málunum, en að reyna að halda frumvörpum á þingi með endalausu kjaftæði vekur mér velgju. Þarna er flokkur sem er með 10-15 prósent þjóðarinnar á bak við sig að hindra eðlilega þróun lýðræðisins.

"Get real guys" þið eruð í minnihluta, það þýðir að það er minnihluti þjóðarinnar sem vill að ykkar skoðanir nái fram að ganga. Framkoma ykkar gerir ekkert nema að setja niður virðingu alþingis og þeirra sem til þess eru kosnir.

Sýnið frekar almennilega andstöðu byggða á hnitmiðuðum og knöppum málflutningi frekar en að drepa málinu á dreif með 24 klukkustunda ræðuhaldi. Er sammála Helga Hjörvar að sum ykkar eigið meira heima á endurmenntunarnámsskeiði en Alþingi ef þið getið ekki komið skoðunum ykkar til skila á innan við 15 mínútum.

Sýnist stjórnin vera að reyna að bjarga andliti VG með því að draga þá úr sandkassanum og inn í raunveruleikann. Með takmörkun á ræðutíma gæti farið svo að hægt verði að líta á VG sem alvöru stjórnarandstöðu.

Lfiði heil.


Frétt af mbl.is Ekki til umræðu að versla með réttindi og vígstöðu stjórnarandstöðu