Sunday, October 28, 2007

Eru blaðamenn lötustu starfsmenn í heimi?

Undanfarið hefur það ekki farið fram hjá manni að það er gúrkutíð hjá fjölmiðlum. Reyndar er ástandið búið að vera svo slæmt að kalla má það ofurgúrkutíð eins og fréttaflutningurinn hefur verið.

Nú ekki vantar framboðið á óumbeðnum umbúðapappír sem treðst inn um lúguna hjá manni, þrátt fyrir augljós tilmæli á hurðinni að undirritaður kæri sig hvorki um Fréttablaðið né 24 Stundir. Einstaka sinnum svo dettur inn bæjarfréttablað, sem hefur klárlega vinningin þegar efnistök blaðanna eru skoðuð.

Bæði Fréttablaðið og 24 stundir er svo rýrt að það má lesa forsíðu og tvær síður inn í blaðið mínus heilsíðuauglýsing og svo er gamanið búið. Restin af blaðinu eru smáauglýsingar, "fréttir" af nýjustu skandölum fræga fólksins, vinnuvélablað (ég veit ekki hvaða vinnuvélablæti blaðaútgefendur eru haldnir), íþróttasíðurnar (geisp), en þó læt ég mig hafa það að lesa teiknimyndasögurnar, enda Pondus og Hermann ómissandi.

Reyndar er langt síðan að ég hætti að fletta blöðum, ég er með mbl í netáskrift og get nálgast hin blöðin líka á vefnum, þannig að eina sem pappírinn gerir fyrir mig er að skapa mér óumbeðnar ferðir á sorpu.

En aftur af gúrkutíðinni. Það sem innblés mér þetta nöldur var að sjá forsíðuna á Visir.is. Þar er verið að ræða um nýjasta nýtt í Madeleine málinu. Þar er "frétt" sem er étin beint upp úr snepli sem kallast News of the World og hefur í mínum huga og margra annara verið álitið jafn áreiðanlegt og National Enquierer. Semsagt fréttin þýdd beint upp úr skítasnepli sem er ekki virði pappírsins sem hann er gefin út á. Og þetta ratar á forsíðu Visir.is???? Ereggiílagiiiiii með þetta lið?

Eina blaðið sem virðist leggja einhvern metnað í það sem þeir eru að gefa út er Morgunblaðið, þar eru tekin fyrir stærri mál og þeim gerð góð skil, jafnvel þó ekki sé mikið að gerast á götunni. Fríblöðin eru svo nísk að þau virðast ekki vera með sjálfstæðan fréttaflutning heldur er orðið meira og minna "kött" og "peist" af bloggsíðum og innsendum greinum í héraðsfréttablöð.

Ég bara spyr, til hvers þarf blaðamenn til að gefa svona lagað út? Þetta eru sömu vinnubrögð og sex ára krökkum er kennt í föndri? Kanski er ráð að innlima leikskóla í ritstjórnarskrifstofur fríblaðana til að ná þokkalegum samlegðaráhrifum

Er það nema von að maður spyrji sig hvort að blaðamenn á Íslandi séu lötustu starfsmenn í heimi, hvar er metnaðurinn?

Wednesday, October 24, 2007

Barnið dettur í það þó brunnurinn sé byrgður, það finnur bara aðra leið.

Þessa dagana ganga heilsupostular hver á eftir öðrum og velta upp ægisögum um skaðsemi þess að selja áfengi í hillum matvöruverslana.

Ekki nóg um það, heldur standa afturhaldsmussukommatittirnir á því fastar en fótunum að þetta sé bara gert til að auka hagnað heildsala, milliliða og smásala. Duuuuh, samkeppni (þó hún heiti fákeppni) sér um að tryggja hagstæðara vöruverð svo lengi sem menn svína ekki á því í samkeppnishamlandi bíltúrum um Öskjuhlíðina.

Í flestum velferðarríkjum betri ríkjum er þetta bara selt á kassanum í hverri matvörubúð, hinsvegar eiga einhverjar aðrar "ógreinilegar" reglur að gilda um íbúa norður evrópu, þar sem þetta er hættulegra efni en eitur í höndum okkar sem hér búa.

Að neyslan margfaldist við að gefa þetta frjálst segir velferðarráð, hvernig margfaldast hún? Seldir lítrar af áfengum drykkjum, seldir alkohóllítrar? Mér finnst það bara skipta heilmiklu máli hvernig þessi eining er fundin. Það er ekkert óeðlilegt við það að maður fái sér oftar rauðvín með matnum fyrst maður getur gripið það með um leið og maður kaupir í matinn. Fyrst maður fær sér oftar rauðvín þá hlýtur magnið að aukast, en það þarf ekki að vera neitt verra ef prósentunum fækkar í því sem við drekkum.

Held að það hefði orðið okkar mesta gæfa að forsjárhyggjupostular fortíðarinnar hefðu sleppt því að banna bjórinn á sínum tíma. Mér finnst amk fólk drekka betur í dag en það gerði, fær sér kanski eitt tvö léttvínsglös og búið eða einn eða tvo bjóra, en hvolfir ekki brennivínsflöskunni í sig á einum til tveimur tímum og verður sótölvað um leið og svo timbrað daginn eftir að bráðasta nauðsyn er að rétta sig af eigi viðkomandi að halda lífi. Nei þá er nú betra að taka einn eða tvo kalda og vakna stálhress daginn eftir.

Bara gera þetta sem aðgengilegast takk fyrir, já og vodkann líka ef ég skyldi vilja blanda hanastél í pinnapartýinu mínu um helgina.

Frétt Mbl.is

Thursday, October 11, 2007

Ástæðan? REI eða Alfreð?

Núna seinnipartinn flaug mér í hug smá samsæriskenning. Skyldi REI sé bara tylliástæða fyrir Björn Inga að rjúfa samstarfið við sjallana?

Aðalástæðan skyldi þó ekki vera sú að nú sé verið að refsa fyrir upplausn á byggingarnefnd hátæknisjúkrahúss og brotthvarfi félaga Björns úr forsæti þeirrar stjórnar sem valdi þessum skyndilegu vinslitum? Einhvernveginn finnst mér þetta REI/GGE mál of mikið smotterí til að valda svona miklu fjaðrafoki.

Eitt veit ég eftir þennan dag, aldrei skal ég þurfa að reiða mig á framsóknarmann í einu eða neinu það sem eftir er ævinnar. Þetta verður fín borgarstjórn, gangi Birni Inga vel að vinna með þremur öðrum flokkum fyrst hann gat ekki unnið með sjálfstæðisflokknum einum og sér.

Bætt við kl:20:07

Í viðtali á Vísi.is er vitnað til þess að Alfreð eigi hlut að máli varðandi myndun nýs meirihluta.

(sjá: http://www.visir.is/article/20071011/FRETTIR01/71011116#)

Þar stendur "Aðspurður um það hvort kalla megi nýja borgarstjórnarmeirihlutann Alfreðsstjórnina segir hann "Ég var nú hættur í pólitík og farinn að snúa mér að öðrum verkefnum - byggingu nýs sjúkrahúss. Mér var síðan kippt út úr því verkefni af Guðlaugi Þór Þórðarsyni heilbrigðisráðherra. Þar með gafst mér tími til annarra verkefna. Það má því kannski allt eins eigna Guðlaugi heiðurinn að nýjum meirihluta," segir Alfreð"

Klárt að frammarar ríða aldrei við einteyming.