Undanfarið hefur það ekki farið fram hjá manni að það er gúrkutíð hjá fjölmiðlum. Reyndar er ástandið búið að vera svo slæmt að kalla má það ofurgúrkutíð eins og fréttaflutningurinn hefur verið.
Nú ekki vantar framboðið á óumbeðnum umbúðapappír sem treðst inn um lúguna hjá manni, þrátt fyrir augljós tilmæli á hurðinni að undirritaður kæri sig hvorki um Fréttablaðið né 24 Stundir. Einstaka sinnum svo dettur inn bæjarfréttablað, sem hefur klárlega vinningin þegar efnistök blaðanna eru skoðuð.
Bæði Fréttablaðið og 24 stundir er svo rýrt að það má lesa forsíðu og tvær síður inn í blaðið mínus heilsíðuauglýsing og svo er gamanið búið. Restin af blaðinu eru smáauglýsingar, "fréttir" af nýjustu skandölum fræga fólksins, vinnuvélablað (ég veit ekki hvaða vinnuvélablæti blaðaútgefendur eru haldnir), íþróttasíðurnar (geisp), en þó læt ég mig hafa það að lesa teiknimyndasögurnar, enda Pondus og Hermann ómissandi.
Reyndar er langt síðan að ég hætti að fletta blöðum, ég er með mbl í netáskrift og get nálgast hin blöðin líka á vefnum, þannig að eina sem pappírinn gerir fyrir mig er að skapa mér óumbeðnar ferðir á sorpu.
En aftur af gúrkutíðinni. Það sem innblés mér þetta nöldur var að sjá forsíðuna á Visir.is. Þar er verið að ræða um nýjasta nýtt í Madeleine málinu. Þar er "frétt" sem er étin beint upp úr snepli sem kallast News of the World og hefur í mínum huga og margra annara verið álitið jafn áreiðanlegt og National Enquierer. Semsagt fréttin þýdd beint upp úr skítasnepli sem er ekki virði pappírsins sem hann er gefin út á. Og þetta ratar á forsíðu Visir.is???? Ereggiílagiiiiii með þetta lið?
Eina blaðið sem virðist leggja einhvern metnað í það sem þeir eru að gefa út er Morgunblaðið, þar eru tekin fyrir stærri mál og þeim gerð góð skil, jafnvel þó ekki sé mikið að gerast á götunni. Fríblöðin eru svo nísk að þau virðast ekki vera með sjálfstæðan fréttaflutning heldur er orðið meira og minna "kött" og "peist" af bloggsíðum og innsendum greinum í héraðsfréttablöð.
Ég bara spyr, til hvers þarf blaðamenn til að gefa svona lagað út? Þetta eru sömu vinnubrögð og sex ára krökkum er kennt í föndri? Kanski er ráð að innlima leikskóla í ritstjórnarskrifstofur fríblaðana til að ná þokkalegum samlegðaráhrifum
Er það nema von að maður spyrji sig hvort að blaðamenn á Íslandi séu lötustu starfsmenn í heimi, hvar er metnaðurinn?